Tengdar greinar
Hvað geri ég ef það er mygla í leiguhúsnæði?
Ef þig grunar að mygla sé í leiguhúsnæðinu þínu, er mikilvægt að grípa til aðgerða til að vernda réttindi þín samkvæmt húsaleigulögum. Hér eru einfaldar leiðbeiningar:
-
Hafðu samband við leigusala: Sendu leigusala þínum skriflega beiðni um skoðun á húsnæðinu vegna gruns um myglu. Notaðu tölvupóst til að hafa sönnunargögn um samskipti ykkar og sendu á skráð netfang leigusala samkvæmt húsaleigusamningi.
-
Óskað eftir úttekt: Hægt er að hafa samband við Heilbrigðiseftirlit á þínu svæði til að fá úttekt á fasteigninni. Ef úttektin sýnir að húsnæðið er óíbúðarhæft, telst niðurstaðan almennt grundvöllur riftunar á leigusamningi. Leitið ráðgjafar lögmanns áður en ákvörðun um riftun er tekin.
-
Senda sýni til greiningar: Ef ekki fæst staðfesting frá Heilbrigðiseftirlitinu, getur þú tekið sýni af meintri myglu og sent til Náttúrufræðistofnunar Íslands til frekari greiningar.
-
Bíddu eftir aðgerðum leigusala: Leigusali hefur allt að fjórar vikur til að bregðast við. Ef ekkert er gert, mátt þú ráða bót á vandanum og draga kostnaðinn frá leigunni, að því gefnu að þú hafir fengið samþykki úttektaraðila. Sjá grein um viðhald leiguhúsnæðis
-
Riftun leigusamnings: Ef leigusali bregst ekki við innan átta vikna og vandinn er verulegur, getur þú rift leigusamningi. Niðurstöður frá Heilbrigðiseftirlitinu og Náttúrufræðistofnun geta styrkt mál þitt. Leitið ráðgjafar lögmanns áður en leigusamningi er rift til að gæta réttar þíns og hagsmuna.
Þessar aðgerðir gera þér kleift að bregðast við mygluvandamálum á skilvirkan og löglegan hátt en við ítrekum mikilvægi þess að leita til fagaðila á þessu sviði, t.d. lögmanns ef rifta á leigusamningi. Eins geta bæði leigutakar og leigusalar leitað sér upplýsinga hjá Leiguaðstoð Neytendasamtakanna á ns.is
Uppfært 28 maí 2024
Var greinin hjálpleg?